Elías Þorvaldsson

Elías Þorvaldsson
Elías Þorvaldsson

Elías fór fyrst að kenna tónlist á Siglufirði á vegum verkalýðsfélaganna á árunum 1972-1975.
Hann kenndi við Tónlistarskóla Siglufjarðar frá stofnun hans árið 1975 til ársins 2010 og var skólastjóri hans frá 1977-2010.
Aðstoðarskólastjóri Tónskóla Fjallabyggðar 2010-2016.

Elías kenndi einnig tónmennt við Grunnskóla Siglufjarðar til fjölda ára og þá sinnti hann enskukennslu í efri bekkjum Grunnskólans í nokkur ár.
Hann útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1992, með ensku sem valgrein, en lokaritgerð hans nefndist "Tónlist og tungumálanám."

Hann lék með hljómsveitinni Gautar í u.þ.b. 30 ár og tók ásamt hljómsveitinni þátt í "Vísisævintýrinu" með tilheyrandi plötuupptökum, tónleikum og ferðalögum m.a. til Danmerkur og Frakklands undir stjórn hins frábæra kórstjóra og tónlistarmanns Gerhards Schmidt.

Elías hefur í gegnum tíðina stjórnað ýmsum kórum til margra ára, t.d. Barnakór Grunnskólans, Kvennakór Siglufjarðar, Karlakór Siglufjarðar og er núverandi stjórnandi Karlakórsins í Fjallabyggð.
Þá eru ótaldir ýmsir samspilshópar sem hann hefur haft umsjón með, t.d. Harmonikkusveit Siglufjarðar sem lengi var mjög virkur félagsskapur. Allt þetta samstarf gat verið bæði krefjandi og gefandi og í minningunni lifa ekki síst ógleymanlegar söng- og hljómsveitaferðir innanlands og einnig til annarra landa með frábæru fólki.

Elías Þorvaldsson er fæddur á Siglufirði 24. maí 1948, sonur hjónanna Þorvaldar Þorleifssonar og Líneyjar Elíasdóttur, yngstur þriggja systkina.
Hann stundaði nám við Barnaskólann og Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og einnig Iðnskólann á Siglufirði.
Tónlistin heillaði hann alla tíð og nam hann tónlist hjá ýmsum góðum kennurum og má þar sérstaklega nefna Sigursvein D. Kristinsson og Gerhard Schmidt.

Þó svo að Elías hverfi nú frá kennslu þá á hann mörg áhugamál, hann hefur t.d. gert töluvert af því að semja tónlist og vonast nú til að geta gert meira af því, ásamt því að verja meiri tíma með fjölskyldunni.

Við látum hér nokkrar myndir fylgja með sem voru teknar þegar Elías tók á móti gjöfum frá starfsfólki skólans og Tónlistarskólanum á Tröllaskaga. Það var listakonan Kristín R Trampe sem skar út munina, sem báðir eru tengdir tónlist og ævistarfi Elísar í gegnum árin. Það voru þeir Þorsteinn Sveinsson og Magnús G Ólafsson sem afhentu Elísi munina fyrir hönd starfsfólks  og Tónlistarskólans.

Fjallabyggð og starfsfólk tónlistarskólans  þakkar Elías kærlega fyrir hans framlag til eflingar tónlistarkennslu og tónlistarmenningar á öllum þessum árum og óskar honum velfarnaðar.