Skólanámskrá 2024 - 2025

SKÓLANÁMSKRÁ

TÓNLISTARSKÓLANS Á TRÖLLASKAGA

2024 -2025. 

Aðalnámskrá tónlistarskólana

Formáli:

Hér gefur að líta skólanámskrá Tónlistarskólans á Tröllaskaga. Í námskrá þessari er leitast við að gefa góða heildarmynd af skipulagi, námi, kennslu og sögu skólans. Í Aðalnámskrá tónlistarskóla frá árinu 2000 stendur: „Öldum saman hefur tónlist, drottning listanna, verið ríkur þáttur í lífi og starfi manna, gleði og sorgum. Tónlistin er óaðskiljanlegur hluti af menningararfi þjóða.“ Í þessum orðum felst að tónlistarnám á að vekja ánægju og örva nemendur til að iðka tónlist og njóta hennar. Til þess að svo sé þá er mikilvægt er að nemendur búi við jákvætt viðhorf til tónlistarnámsins, að foreldrar/forráða­menn sýni náminu áhuga og að þeir fylgist með framvindu þess. Hljóðfæra og söngnám byggist að mestu leyti á daglegri og reglubundinni þjálfun og er því að verulegu leyti heimanám. Án markvissra æfinga verður árangur rýr. Eðlilegt er að áhugi nemenda sé ekki alltaf samur og jafn. Ef nemandi sýnir merki um uppgjöf er mikilvægt að kennari og foreldrar leiti orsaka og lausna. Til að hjálpa til við að viðhalda áhuganum er mikilvægt að gefa börnum færi á að hlusta á tónlist. Foreldrar geta lagt sitt af mörkum með því að sækja tónlistarviðburði með börnunum. Tónlistarnám þarf að vera ánægjulegt og ánægjan felst ekki síst í stolti nemandans yfir eigin framförum og aukinni færni.

Leiðarljós

Tónlistarskólinn skal vera ein af menningarstoðum samfélagsins og taka virkan þátt í menningarlífinu. Nemendur og kennarar Tónlistarskólans skulu vera sýnilegir á hinum ýmsu samkomum byggðarlagsins og þannig efla stöðu tónlistar í samfélaginu. Æskilegt er að kennarar, jafnt sem nemendur, fái tækifæri til að stunda list sína og að samfélagið geti notið þess.

Hlutverk

Í Aðalnámskrá tónlistaskólanna kemur fram að tónlistarskóli skal vera opinn fyrir alla og sinna almennu tónlistaruppeldi. Tónlistarskólinn þarf því að uppfylla mismunandi kröfur, vera fyrir nemendur sem læra einungis sér til skemmtunar og fyrir nemendur sem vilja búa sig undir frekara tónlistarnám og skyldar greinar á háskólastigi. Hlutverk skólans er að stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, njóta og skilja tónlist. Efla tónlistarlíf almennt og gera nemendur virkari og sjálfstæðari hlustendur. Starfsemi skólans byggir meðal annars á þeim grunni að markvisst tónlistar­nám stuðli að auknum þroska nemenda. Í Aðalnámskrá tónlistarskólanna er því haldið fram að tónlistarnám þjálfi nemendur í öguðum vinnubrögðum, bæði sem einstaklinga og í hópi, bæti sjálfs­ímynd og árangur í almennu námi. Skólinn hyggst ná markmiðum sínum með því að veita almenna tónlistarfræðslu, þ.e. að kenna nemendum sínum að leika á hljóðfæri, syngja og skapa eigin tónlist. 

Um Tónlistarskólann á Tröllaskaga

Á skólaárinu 2024. -2025. eru nemendur í hljóðfæranámi 160 auk barnakóra og nemenda 1.-4. bekkjar sem eru í forskóla. Kennslan fer fram í húsnæði Tónlistarskólans í Víkurröst á Dalvík og í Árskógarskóla, Menningarhúsinu Tjarnarborg við Aðalgötu 13 í Ólafsfirði og svo húsnæði skólans á Siglufirði við Aðalgötu 37.

Í skólanum starfa 12 tónlistarkennarar ýmist í hluta- og fullu starfi. Í skólanum er kennt á píanó, fiðlu, gítar, blokk­flautu, þverflautu, trompet, klarínett, saxófón, rafmagnsgítar, bassagítar, trommur og einnig er kenndur söngur. Forskólinn er fyrir nemendur 1.-4. Bekkjar í grunnskólanum. Þar er lögð áhersla á söng, hrynþjálfun og grundvallarþekkingu á nótum. Samvinna milli Tónlistarskólans og Grunnskóla á Tröllaskaga er í góðum farvegi og í stöðugri þróun. Stefnt er að því skólaárið 2023-2024 að auka samstarf tónlistar-, grunn- og leikskóla á Tröllaskaga enn frekar.

Saga

Tónlistarskólinn á Tröllaskaga var stofnaður 1. ágúst 2016 og er samrekin af Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð. 

Innritun og skólagjöld

Nýir nemendur eru skráðir í skólann að vori og er innskráning auglýst sérstaklega. Skráning fer fram á netinu á vefsíðu tónlistarskólans.

Slóðin er www.tat.is,  gjaldkeri Dalvíkurbyggðar sér um innheimtu skólagjalda.

Skólareglur

Við Tónlistarskólann á Tröllaskaga gilda allar almennar umgengisreglur.

Við hvetjum nemendur til þess að:

  • Mæta stundvíslega í allar kennslustundir.
  • Undirbúa sig vel fyrir tónlistartímann með æfingum heima fyrir.
  • Ganga vel um skólann sinn og sýna öllum þar innan veggja tillitsemi.
  • Taka þátt í hópastarfi og tónleikum.

Foreldra biðjum við um að:

  • Tilkynna forföll svo fljótt sem auðið er.
  • Athuga það að við skráningu myndast skuldbinding til þess að greiða út önnina
  • Kennara að athuga það að:
  • Falli tími niður hjá nemanda ber að bæta nemandanum hann upp.
  • Tekið skal fram að ef um veikindi, tónleikahald á vegum Tónlistarskólans, námskeið, próf og starfsemi grunnskólans er að ræða gildir þessi regla ekki.

Jafnréttisáætlun Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Áætlunin var gerð í september 2019 og þarf að endurskoða árlega.

Starfsmenn

Áætlunin byggir á lögum nr. 10/2008. Samkvæmt þeim skal koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum fyrir alla.

Þess skal gætt:

  • Að starfsauglýsingar séu í anda jafnréttislaga.
  • Að konur og karlar njóti sömu launakjara og hafi jafna möguleika á launuðum aukastörfum    innan skólans.
  • Að öllu starfsfólki séu tryggðir möguleikar til endurmenntunar og starfsþróunar óháð kyni og stöðu innan skólans og við úthlutun verkefna sé þess gætt að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kyns.
  • Að skólinn geri starfsfólki sínu kleift að samræma störf sín og skyldur gagnvart fjölskyldum með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða öðru fyrirkomulagi eftir því sem við verður komið.
  • Að starfsfólk verði ekki fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum.
  • Til að gæta þess að ofangreind markmið séu í heiðri höfð skulu árleg starfsþjónustuviðtöl notuð til að kanna líðan og skoðanir starfsmanna m.t.t. jafnréttis.
  • Einnig að umræða um jafnréttismál sem snýr að starfsmönnum og nemendum komi inn á starfsmannafundi með reglulegum hætti, ekki sjaldnar en árlega.

 Nemendur:

  • Í jafnréttisstefnu Tónlistarskólans á Tröllaskaga í málefnum skólans er kveðið á um að skólastjórnendur sjái til þess að:
  • Unnið sé að því að jafna stöðu kynjanna og börnum og unglingum sé veitt hvatning til að nýta hæfileika sína til fulls, bera virðingu hvert fyrir öðru og efla jákvæð samskipti kynjanna
  • TÁT leggi áherslu á að búa bæði kynin undir ábyrgð og skyldur í tónlistarnáminu
  • sjálfstyrking verði sjálfsagður hluti námsins á öllum stigum
  • náms- og starfsfræðslu verði sinnt á síðari stigum tónlistarskólans þar sem nemendur, óháð kyni, hljóta fræðslu og ráðgjöf úr öðrum greinum tónlistarinnar.
  • námsefni mismuni ekki kynjum
  • jafnréttisfræðslu sé sinnt
  • nemendur verði ekki fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni í skólanum
  • Í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga eru ofangreind markmið höfð í heiðri ásamt þeim lögum og reglum sem í gildi eru á hverjum tíma. 
  • Aðgerðir til að uppfylla þessa áætlun eru meðal annars þessar:
  • Gengið skal úr skugga um að öll kennslurými séu ólæst og með óbyrgðum gluggum.
  • Skrifstofur og önnur rými þar sem starfsmenn og nemendur eru skulu vera ólæst.
  • Hvetja skal nemendur af báðum kynjum til samstarfs og samspils og gæta þess að allir   nemendur hafa jöfn tækifæri til þess.
  • Kennarar skulu fara yfir námsefni með það fyrir augum að útiloka það sem getur talist óæskilegt út frá kynjajafnrétti.
  • Að hvetja nemendur af báðum kynjum til að tileinka sér þekkingu á þeirri tækni sem notuð er í skólanum, s.s. hljóðfærum, upptökutækjum og tölvubúnaði.
  • Komi upp hegðunarvandkvæði með einstaka nemendur, áskilur skólinn sér rétt til að taka á slíkum málum í samvinnu við foreldra. 

Tónfundir – Tónleikar

Reglulegur flutningur tónlistar á tónleikum og tónfundum er mikilvæg reynsla fyrir nemendur. Gert er ráð fyrir að allir nemendur komi fram á tónfundum innan skólans, misjafnlega oft. Því er efnt til opinberra tónleika s.s. jólatónleika og vortónleika. Fastur liður í starfi skólans er að heimsækja hinar ýmsu stofnanir, svo sem sjúkra-, elli-, og hjúkrunarheimili og halda tónleika.

Tónleikar og tónfundir (nemendur) 

  • Mætið tímalega     
  • Sitjið kyrr í sætum meðan á tónleikum stendur og hafið hemil á yngstu kynslóðinni, því allt ráp er mjög óþægilegt fyrir þá sem eru að spila.
  • Mælst til þess að nemendur sem koma fram séu snyrtilegir til fara.
  • Vinsamlegast farið ekki af tónleikunum fyrr en þeim er lokið.

Námskeið

Ungir tónlistarmenn sem dvelja í Listhúsi Fjallabyggðar hafa verið með námskeið fyrir kennara og nemendur Tónlistarskólans, og hefur samstarfið gengið með miklum ágætum. Haldið verði áfram samstarfi við Listhúsið og tónlistarmennina sem oft koma frá framandi löndum og gaman er að kynnast

Áfangapróf

Áfangapróf eru framkvæmd samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla og skiptast í grunn- mið- og framhaldsnám. Lengd námstíma innan hvers áfanga er mismunandi og ræðst af ástundun, getu og þroska hvers einstaklings. Kennari metur hvort og hvenær nemandi þreytir áfangapróf. Grunn- og miðnámi lýkur með prófi skv. námskrá Menntamálaráðuneytisins.

Árspróf

Árspróf eru haldin til að meta framfarir nemenda. Ársprófin eru af þremur mismunandi gerðum.

  • Próf A er fyrir nemendur sem eru tilbúnir að þreyta próf en eru stutt á veg komnir.
  • Próf B er fyrir nemendur sem eru komnir nokkru lengra og hafa umtalsvert meiri getu en þeir sem þreyta próf A.
  • Próf C er hugsað eins og undirbúningur fyrir áfangapróf og er sett eins upp.

Umsögn

Þeir nemendur sem ekki eru tilbúnir til að taka próf, hvort sem þeir eru byrjendur eða þreyta ekki próf af öðrum ástæðum, fá umsögn. Til grundvallar umsagnar um nemanda er frammistaða hans í tímum, ástundun og yfirferð námsefnis. Prófskírteini eru veitt öllum sem taka vorpróf og áfangapróf. Á skírteininu er að finna einkunn og umsögn prófdómara um frammistöðu á prófi auk yfirlits yfir námsárangur vetrarins. Áfangaprófsskírteini og ársprófsskírteini eru afhent við skólaslit. Allir nemendur fá umsögn í lok vetrar.

Uppskeruhátíðin Nótan

Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskóla, er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra. Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og standa vonir til að hátíðin verði í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi tónlistarskóla fyrir aðstandendur skólanna, jafnt innan veggja þeirra sem utan. Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með hátíðinni er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt. Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.

Samstarf við Árskógarskóla, Menntaskólann á Tröllaskaga, Grunnskóla Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar

Tónlistarskólinn er með samning við grunnskóla sveitarfélagana um tónlistarkennslu. Öll börn í sex fyrstu bekkjum grunnskólanna fá tónmenntakennslu, þar sem lögð er áhersla á söng, nótnaskrift og almenn kynning á tónlist og tónlistarstefnum.

Samstarf við foreldra/forráðamenn

Samvinna við foreldra er mjög mikilvæg. Á haustönn er foreldravika þar sem foreldrum er boðið að fylgjast með kennslustund og einnig er í boði að hitta stjórnendur skólans í foreldraviku. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við kennara hvenær sem þurfa þykir og fylgjast vel með viskupósti sem er frá kennurum og stjórnendum skólans.

Nauðsynlegt er að foreldrar fylgist náið með hljóðfæranámi barna sinna, hvetji þau og fylgi eftir leiðbeiningum kennara um heimavinnu. Skólinn hefur tekið í notkun nemendabókhaldsvefinn Visku sem gerir kennurum kleift að halda utan um mætingar nemenda sinna á einfaldan hátt og að halda dagbókarfærslur fyrir hvern og einn nemanda sem hægt er að senda foreldrum í tölvupósti. Þannig geta foreldrar fylgst með hvers ætlast er til af nemandanum hverju sinni og fylgt því eftir.

Hagnýtar upplýsingar

Forföll

Forföll tilkynnist tímanlega til viðkomandi kennara eða á skrifstofu skólans í síma Magnús 8982516, þorvaldur 8489731, Guðmann 6929527.

Netfang skólans er tat@tat.is  

Lögbundin frí

Lögbundin frí við skólann eru eftirfarandi: jólafrí og páskafrí samkvæmt skóladagatali, uppstigningardagur, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og annar í hvítasunnu.

Próf

Skólaárið 2023 -2024 verða árspróf í vikunnum 17. - 24. apríl 

Áfangapróf skólans eru um miðjan maí í samvinnu við prófanefnd tónlistarskólanna.

Hljóðfæraleiga

Hljóðfæri eru leigð út til byrjenda gegn gjaldi. Gjaldskrá er á heimasíðu skólans. Foreldrar skrifa undir leigusamning þar sem kveðið er á um ábyrgð á hljóðfærinu.

Nótnabækur

Nótnabækur vegna hljóðfæranáms og tónfræðináms þurfa nemendur að kaupa sjálfir og er nauðsynlegt að þeir eignist sitt eigið nótnasafn.

Innra eftirlit

Á hverju ári eru framkvæmdar kannanir á viðhorfi foreldra til skólastarfsins. Þetta er gert til að geta metið hvort skólinn stenst þær væntingar sem til hans eru gerðar. Einnig eru þessar kannanir stór hluti af því að fylgjast með hvort skólinn stenst þær kröfur sem hann gerir til sjálfs sín. Niðurstöður kannananna eru birtar á heimasíðu skólans í lok skólaársins. Tekið verður tillit til niðurstaðna kannanna, bæði jákvæðra og neikvæðra.

 Fastir liðir í skólastarfinu

  • Foreldravika á haustönn
  • Tónfundir á haustönn
  • Jólatónleikar í Bergi, Tjarnarborg og Siglufjarðarkirkju
  • Þemavika í nóvember
  • Uppskeruhátíðin Tónlistarskólans og Nótan
  • Netkönnun foreldra á vorönn
  • Vortónleikar í Bergi, Tjarnarbor og Siglufjarðarkirkju.
  • Þátttaka í messum og tónlistarflutningur fyrir félagasamtök
  • Tónleikar á elli- og hjúkrunarheimili
  • Nemendur þreyta próf árlega. Ef ekki eru tekin áfangapróf, þá þreyta nemendur árspróf.

Rekstur og fjármögnun

Tónlistarskóli á Tröllaskaga er rekinn af tveimur sveitafélögum Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð og öll umsýsla skólann fer í gegnum skrifstofur Dalvíkurbyggðar.

Skólinn heyrir undir skólanefnd sem skipuð er af sveitafélaginu Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Formaður: Tómas Atli Einarsson, aðalmenn: Katrín Sif Ingvarsdóttir og , Þórhalla Karlsdóttir, Varamaður: Klemenz Bjarki Gunnarson, fulltrúi kennara: Ave Kara Sillaods,  starfsmenn eru Gísli Bjarnason og Ríkey Sigurðsbjörnsdóttir og Magnús G Ólafsson.

Aðalnámskrá Tónlistarskólana

Fræðslustefna Fjallabyggðar

Skólastefna Dalvíkurbyggðar

Persónuverndarstefna Fjallabyggðar

Persónnuverndarstefna Dalvíkurbyggðar